Ritstífla

Thursday, October 13, 2005

Gleðisagan ógurlega

Einu sinni fyrir langa löngu, löngu í öðru veldi, þá var maður á ferð til fjalls í nágrenni við heimili sitt. Fjall þetta var eina kennileitið í hans heimabyggð og ef til vill var það ástæðan fyrir því hve oft hann vandi leið sína að því. Reyndar lét hann sér ekki alltaf nægja að ganga að því heldur gekk hann einnig á það endrum og sinnum en hafið engar áhyggjur, hann gekk ekki á fjallið eins og sumir ganga á vegg heldur væri mun nær að segja að hann hafi gengið upp á fjallið. Eina vandamálið sem þessu fylgdi var það að hversu oft sem hann gekk upp á fjallið þá neyddist hann alltaf til að fara ofan af því aftur þegar hann varð svangur eða bara hreinlega leiður á að sjá alltaf sama útsýnið en eins og ég sagði áður þá var fjallið eina kennileitið í heimabyggð hans og útsýnið því vægast sagt drepleiðinlegt. En stöldrum nú aðeins við augnablikið fyrir löngu lönguna þegar maðurinn var á ferð til fjallsins og ef ykkur finnst sagan svívirðilega leiðinleg til þessa þá get ég huggað ykkur með því að leiðinlegri sögur eru til og það vill svo "skemmtilega" til að framhald þessarar sögu er einmitt í þeim flokki. Nú jæja það mætti halda að þið tryðuð mér ekki því þið eruð enn að lesa þetta. Maðurinn var sem sé á leið að fjallinu, og hvað haldiði að hafi gerst, allt í einu og alveg upp úr þurru án þess að honum gæfist nokkuð ráðrúm til að undirbúa sig þá gerðist bara alls ekki neitt. Venjulega hefði eitthvað átt að gerast úr því það var nú verið að hafa fyrir því að skrásetja þessa sögu en núna brá svo við að það gerðist bara alls ekki neitt.
Nú gekk hann eins og ekkert hefði í skorist, enda hafði ekkert í skorist, á fjallið og staldraði við á toppi þess. Þegar þangað var komið þá horfði hann í kring um sig af gömlum vana og hvað haldiði að hann hafi séð þá. Nú auðvitað sá hann sama gamla marflata og kennileitalausa útsýnið. Hann ældi.