Ritstífla

Saturday, October 15, 2005

Einstaklingsskoðanir vs. Meðaltalsskoðanir

Eins og tiltill síðunnar gefur til kynna þá bjóst ég svo sem alveg eins við að blogga örsjaldan hérna, meira að segja verð ég að viðurkenna að ég þurfti smá hjálp frá gagnasafni mínu til að keyra þetta í gang því fyrsta blókið varð ekki til 13. október 2005 heldur var þetta smásaga sem ég samdi í einhverri "gúrkutíð" í vinnunni sumarið 1998 þar sem ég vann þá á 3ju (eða var það 4ða) hæð í Hafró!

Hins vegar rak ég fyrir tilviljun augun í einhvern rofa efst til vinstri á blogsíðunni þegar ég var í öngum mínum að reyna að láta mér detta eitthvað nýrra í hug til þess að síðan yrði eitthvað meira en bara ein 7 ára gömul færsla.
Rofi þessi kallast "FLAG?" og þegar ég fór að lesa mig til um tilgang hans og fræði sem vísað er í í útskýringunum, þ.e. "The Wisdom of Crowds", þá fóru nú nöldurcellurnar að virka fyrir alvöru :)

Nú togast yfirleitt á í mér viljinn til að hafa alla á jákvæðu nótunum í kringum mig en um leið viljinn til að mínar skoðanir nái yfirhöndinni (þ.e. hafa síðasta orðið).
Oft þarf ég því að velja á milli þess að segja mínar skoðanir og fylgja þeim eftir eða bera við hlutleysi og leyfa öðrum að halda fram sínum skoðunum því fólk verður eitthvað svo miklu opnara og skemmtilegra þegar það spjallar við mann sem skoðanabróður.
Svo kynnist maður fólki mun nánar þegar það opnar sig eins mikið og það gerir í umræðum á jákvæðu nótunum og því meira sem maður kynnist fólki persónulega því minna freistast maður til að flokka það niður í einhverja hópa skilgreinda af manns eigin einfaldandi fordómum.
Sem sagt manni fer að þykja vænna um fólk því það er ekki lengur einhverjar "stereótýpur" heldur mun fremur einstaklingar sem maður gleðst yfir að hitta enn meir ef manni sýnist maður hafa glatt líka :)
Auðvitað er þetta því einungis val þegar skoðanir eru mjög ólíkar en ég held reyndar að ég sé frekar "dipló" sem sumir mundu eflaust kalla undanlátssemi.

Hafið samt engar áhyggjur, ég er ekki með þessu að segja að skoðanir mínar séu alltaf andhverfa skoðana þeirra sem í kringum mig eru og ég sé bara svo dulur að samþykkja í orði hinar skoðanirnar en vilji ekki láta uppi mínar eigin :)
Bæði er það nú svo að það kemur ekki svo oft fyrir að ég sé mjög ósammála fólki í kringum mig og svo er það nú líka oftast þannig að þó ég andmæli ekki harkalega strax í byrjun þá fer yfirleitt í gang ákveðinn "línudans" þar sem ég reyni fyrst að draga fram þá fleti sem ég er sammála fólki með til þess að komast "jákvæðu hliðinni" hjá fólki og síðan reyni ég smám saman að milda frávikin (því flestir draga eitthvað í land frá fyrstu hörðu skoðununum) og að lokum ef tækifæri er til þá reyni ég á eins hægverskann hátt og mér er framast unt að fá fólk til að velta fyrir sér mínum áherslum sem frábrugðnar eru þeirra skoðunum, fyrst sem hugsanlegum möguleika og síðan sem aðeins líklegri möguleika :)
Annars virkar þetta mjög oft líka á hinn veginn því þegar maður er í þeim farvegi að reyna að finna sameiginlegan flöt til að vinna út frá þá lendir maður oft í því að sjá að það eru frábrygði manns eigin skoðanna sem eru ekki alveg í takt við raunveruleikann og breytast þá skoðanirnar skv. því ;)
Af þessum sökum er maður alltaf feginn að vera ekki sá "hot head" að rjúka upp með mótmæli og þras áður en maður hefur aðeins leyft hinum skoðununum að gerjast í eigin kolli í einhvern tíma. Auðvitað væri maður mjög fullkominn ef maður brygðist alltaf svona skynsamlega við en þar sem ég geng út frá því sem staðreynd að ég sé ekki fullkominn, raunar frekar fjarri því, þá reikna ég að sjálfsögðu með því að ég hafi oft brugðist rangt við í fljótfærni og muni vissulega gera það síðar en vonandi bara æ sjaldnar og geti þá einhvern vegin bakkað jákvætt út úr því :)
Við þetta má svo bæta að hugtakið "fullkomnun" er frekar óljóst í annars breytilegum heimi og yfirleitt er það annað hvort rangt notað eða notað á sem einhvers konar áhersluorð á efsta stig eins og "fullkomin þögn" eða jafnvel sem hálfgerð öfugmæli eins og "fullkomið kæruleysi" (ekki það, það er auðvitað gott að vera með hreina sakaskrá ef maður snýr ögn út úr þessu).
Svo er ég persónulega mikið á móti eltingaleik við fullkomnun því þetta er eitthvað svo endanlegt hugtak, gæti fólk til dæmis hugsað sér að heyra einhvern lýsa þvá að nú þegar hann væri loks búinn að ná því takmarki að verða fullkominn þá veri ekkert að vanbúnaði að skella sér á næsta takmark sem væri að koma sér upp sólpalli við húsið svo hann gæti nú grillað með stæl!!! ;)

En hvað var það annars í þessari "FLAG?" útskýringu sem hratt þessum orðaflaumi af stað og af hverju þessi titill á bloggi dagsins!?
Nú væri freistandi að þykjast hafa gleymt því hvað maður var að hugsa um þegar þessi hingað til löngu skrif hófust enda pistillinn orðinn svívirðilega langur og líkastur sápuóperu þar sem skamt er á milli predikana í umvöndunarstíl annars vegar og kærleiksríkra, allt að því væminna, "öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir" orðræðna.
En þó maður sé að því að manni sjálfum finnst frekar kalkaður og þykist oft geta borið fyrir sig aldrinum sem afsökun þá man ég því miður ennþá hvað var kveikjan að skrifunum og því er ekki allt búið enn. Ég get ekki einu sinni lofað því að vera kominn langleiðina, kvíði því raunar að ég sé bara rétt svo kominn með innganginn! Og ekki hjálpar að ég er búinn að skrifa 10 línur í framhaldi af framsetningu spurningarinnar án þess að byrja að svara henni en þetta kallast líklega að teygja lopann eða jafnvel að vera góður pólitíkus! ;)
Ég er svo mikill nörd að ég "update-aði" línufjöldatöluna þegar setningin endaði ekki fyrr en 2 línum neðar, hmmm :)

Málið er sem sagt að þeir vilja meina að blogsamfélagið geti á vissan hátt greitt atkvæði um aðgang sinn að bloggi með "vafasömum skoðunum" þ.a. ef mikið er "flaggað" þá sé efnið þar með dæmt "óheilsusamlegt" og "stimplað varasamt" (nú notaði ég svo mikið af gæsalöppum að erfðafræðingar úti í heimi eru farnir að spyrða saman erfðaefni úr gæsum og þúsundfætlum til að tryggja það að framboðið anni eftirspurninni í framtíðinni en þangað til þúsundfóta gæsir verða algengar þá hefur veiðikvótinn á hefðbundnum gæsum verið aukinn!!!).
Rétta leiðin væri að sjálfsögðu að láta síðurnar standa en fá þá sem þarna koma að óbreyttu til með að flagga til þess að skrifa þess í stað andsvör því eins og allir sjá þá fá hinir "stimpluðu" ekki tækifæri til að sjá eðlilegt litróf annarra manna skoðanna birtast í andsvörum á sínu blóki heldur eitthvert skekkt úrtak þeirra sem komast inn á síðuna og eru þá e.t.v. hinir fáu upprunalegu andsvarendur auk öfgafólks sem dregst að "bannvörunni"!!
Andsvör geta geta nefnilega þróað skoðanir þess sem svarað er á ýmsan hátt, ekki bara snúið skoðununum inn á línu þess sem svaraði heldur einnig leitt til nánari umhugsunar og þá getur jafnvel einhver "3ja hliðin" á málinu komið í ljós.

Svo er alveg stórmerkilegt að þeir skuli nota "The Wisdom of Crowds" til að réttlæta slíka flokkun á skoðunum í "ásættanlega skoðanir" og "varasamar skoðanir" (það skal tekið fram að ég er farinn að nota gervigæsalappir til verndar gæsastofns landsins og þar sem ég hvorki sé né finn nokkurn mun þá hvet ég aðra til að gera slíkt hið sama).
Eitt er að það er nú soldið merkilegt að skv. Vikipedia þá fjallar sú bók um það hvernig réttar niðurstöður nást fram ef allar sjálfstæðar skoðanir eru teknar með í reikninginn þegar leitað er réttu niðurstöðunnar og því dálítið skrítið að rétta niðurstaðan á því hvaða blogg má sjást sé sú að einhver fjöldi geti ákveðið að einhver þeirra séu "óholl" til aflestrar, en hvernig á þá bloggsamfélagið að mynda sér skoðun út frá "öllum sjálfstæðum skoðunum" ef það sér ekki bloggin sem fara í taugarnar á a.m.k. einhverjum lágmarksfjölda bloggskoðenda.
Þetta er e.t.v. ekki bein þversögn (e. Paradox) en a.m.k. er hér ein ákvörðunartaka tekinn með tiltekinni aðferðafræði að takmarka möguleikann á að síðari ákvarðnir geti verið teknar með sömu aðferðafræði!
Annað er nú það að þessi aðferðafræði sem slík er líklegast ekki nothæf nema fyrir hluti sem skipta einstaklinginn takmörkuðu eða engu máli, eins og t.d. markaðsfræði og annað "crowd control" og því freistandi að líta á þetta sem frelsiskerðandi "andlýðræðislega" aðferðafræði sem einungis hjálpi þeim sem hag hafi af því að samfélagið sé í föstum skorðum og hegði sér fyrirsjáanlega.
Stundum fæ ég það lúmskt á tilfinninguna að ég sé ekki vinstri sinnaður í raun heldur nær því að vera andstjórnunarlega sinnaður (anarkisti eiginlega) og oft hef ég nú séð fyrir mér að betra væri að ríkisstofnanir væru skipulagðar þannig að í stað þess að stjórnvöld stýrðu þjóðfélaginu í gegnum þær þá væru þetta bara hlutlausar þjónustueiningar.

Annars verð ég bara svo einstaklega eitthvað pirraður þegar ég fæ það á tilfinninguna að upplýsingastreymið sem almenningur sé gerður móttæklilegastur fyrir séu auglýsingar og annar eyðsluhvetjandi áróður því eins og ég sé þetta þá gildir ennþá þetta með að "bestu hlutirnir í lífinu eru fríir" en það þarf tíma til þess að njóta þeirra og þann tíma skerðum við ef við vinnum okkur til húðar til að "auka hagvöxtinn".
Hagvöxtur er annars bara svo skrítið fyrirbæri, því orðið hljómar jákvætt en samt er þetta svo nátengt þennslu (sem er eiginlega bara lífsgæðakapphlaup fjöldans) sem allir hagfræðingar mæla gegn.

Æ, mér er farið að líða illa yfir þessari umræðu, enda er hún farin að snúast um peninga og peningar hafa einhvern vegin alltaf virkað svo skringilega á mig. Margt má kaupa fyrir peninga og maður veltir þeim möguleikum einna helst fyrir sér þegar maður er ekki með þá en þegar þeir koma þá veit maður ekki hvað best er að gera við þá svo maður endar með því að spara þá (sem stundum er jákvætt fyrir þjóðfélagið og stundum neikvætt) eða lána einhverjum sem hefur betri not fyrir þá ;)

Næst ætla ég að reyna að takmarka mig við lítið afmarkað efni. Ég er gjarn á að missa mig í svona löguðu eins og bróðir minn þekkir svo vel eftir margra klukkutíma "fótabanana" (maður er að kveðja fyrir utan dyrnar en umræðan keðjast bara endalaust áfram þar til annar okkar gefur hinum merki um að nú séu bara lappirnar um það bil að hætta að halda honum uppi) ;)