Ritstífla

Tuesday, November 08, 2005

Draumfarir, ófarir, svaðilfarir o.s.frv.

Flestar "farir" virðast vera heldur óhagstæðar. Menn segja "farir" sínar ekki sléttar, menn líða fyrir hamfarir (eða fara hamförum) og lenda svo í einhverjum óförum þegar þeir hafa álpast til einhverra svaðilfara.

Einn staður virðist þó vera nokkuð öruggur þegar "farir" eru annars vegar því eftir erfiðan dag er mjög gott að skella sér upp í rúm, hafa ljósið kveikt og ... fara að sofa því ég hef komist að því að mig dreymir mun meira með ljósið kveikt heldur en ef myrkt er í herberginu.
Það er að vísu hægt að finna ókosti við draumfarir en þá er yfirleitt um að ræða ytri aðstæður sem skemma fyrir manni. Draumsvefn er víst ekki jafn hvílandi eins og draumlaus svefn og því þarf meira af honum en eini gallinn við það er í raun bara utanaðkomandi tímaþröng.

Nýlega varð ég reyndar fyrir annars konar vandræðum af völdum draumsvefns en það kom líka til vegna utanaðkomandi aðstæðna og það meira að segja vegna annarra "fara"!
Málið var sem sagt að ég lá uppi í rúmi og var eitthvað að dreyma eins og gengur nema hvað þessi hluti draumsins virtist ganga út á það að einhver var að segja mér að stór hluti frumárása í TKD (þ.e.a.s. hið kóreanska TaeKwonDo) væru "fake" og ég ákvað af minni nýfengna inngripi í þann stíl að sýna eitt slíkt sem gengur út á það að "fake-a" dollyochagi (yfirleitt með hægri) en fylgja strax með yeopchagi með hinni löppinni.
Þetta hefði verið allt í góðu ef ekki hefði verið fyrir þá sök að ég hafði nýlega lent í "óförum" og því vaknaði ég upp með andfælum (eru það sérhæfðar fuglahræður!?!) því minnsta hreyfing vinstri lappar síðustu tvo dagana hefur valdið sársauka í vinstra hné sem nú er stokkbólgið og innáblætt.

Ég er annars kominn á þá skoðun að ég sé í raun óttalegur flækjufótur því þetta er í annað sinn sem ég hnjaska mig á hné í boltaíþrótt, núna bandý, síðast vorið 2001 á hinu hnénu í fótbolta, en í hvorugt skiptið get ég fundið annan sökudólg en sjálfan mig því í báðum tilfellum þá sný ég einfaldlega bara á mér hnéð án þess að aðrir hjálpi mér við að vinda upp á legginn! :)

Í augnablikinu þá lítur út fyrir að þetta hnjask falli soldið í skuggan af fyrri hnjámeiðslum því í fyrra skiptið þá slitnaði miðlæga bandið, fremra krossbandið, liðpokinn rifnaði og innri liðþófinn skemmdist það illa að helming hans varð að fjarlægja.
Eins og er virðist fyrsta mat benda til þess að liðbönd hafi sloppið og líklega liðþófar að mestu svo nú er bara næst á dagskrá að ná bólgunum úr hnénu og sjá svo til.
Smá fyrirvari reyndar, síðast tók það ca. 6 vikur fyrir þá á Borgó að breyta matinu úr "líklegast ekki slitið krossband" í það að vera hissa yfir hægum bata og senda mig þá í tékk til sérfræðings sem sá um leið að ég var slitinn og sá (nafni minn Brandsson) hreinsaði ruslið úr hnénu sem hafði í 3-4 vikur hindrað að ég gæti ýmist beygt hnéð eða rétt úr því að fullu.

Það má því segja að neikvæðar "farir" séu aðeins að trufla mig í því að ég njóti áhyggjulaus jákvæðra "fara" ;)