Blótað á laun ...
Þegar þetta er ritað þá er langt liðið á aðfaranótt 1. júní 2006, e.t.v. ekki svo merkilegt en það þýðir þó að 31. maí er liðinn og þar með ættu margir samviskusamir sjálfsblekkjarar að vera reykjandi stíft svo liggur við meðvitundarleysi af nikótín ofgnótt!!!
En auðvitað er þetta lítill hluti reykingarmanna því þeir eru nú ekki alvitlausir vel flestir og sjá auðvitað lítinn heilsufarslegan hag í því að pína sig í einn dag á ári til þess eins að vinna tjörumissi lungnanna upp tvöfalt næsta dag og reykja svo auðvitað hina 363,2422 dagana sem eftir eru fram að næsta reyklausa degi!!
Til að fyrirbyggja allan (eða í það minnsta einn stórvægilegan) misskilning þá er ég alls ekki að mæla gegn ráðstöfunum til að draga úr reykingum, sjálfur reyki ég ekki og reyni að halda mig fjarri reyk eða stilla mér upp með vindinn í bakið, en ég á erfitt með að þola sýndarmennsku og því finnst mér dagurinn frekar mislukkaður! (sífellt dregur úr upphrópunarmerkjunum, mér er greinilega að renna reiðin ;-) )
Ég á enn eftir að hitta reykingarmanneskju sem heldur því statt og stöðugt fram að hún sé sátt við sínar reykingar og vilji að sem flestir fái notið sinnar gæfu á gráu skýi!! (úps, nú er ég greinilega aftur að æsast upp :o )
Þrátt fyrir að flestir, hvort heldur sem um er að ræða tjörufyllta eður ei, séu sem sagt að hallmæla reykingum þá virðist flest fólk sem hefur á annað borð hafið tjörutott ekkert vera á leiðinni að hætta því svo til hvers þá að einbeita sér svona að þessum hóp?!?
Ég hef mun betri hugmynd, hún er ekki ný, hún er eiginlega u.þ.b. 1000 ára gömul!!!
Svo er mál með vexti að eitt sinn voru tvenn trúarbrögð jafnrétthá í þessu landi.
Hin fyrri voru hinn gamli siður þar sem menn trúðu á verkaskiptingu margra guða sem höfðu ofurmannlega eiginleika en voru samt eitthvað svo breyskir og mannlegir í hugsun að auðvelt var fyrir almúgann að skilja þá.
Hin síðari voru innflutt frá austurlöndum nær (en samt að því er virtist eitthvað svo allt of fjarri) þar sem guðinn var einn en samt tveir og jafnvel "þrí-einn" á tillidögum, einnig gæddur/ir ofurmannlegum eiginleikum en var/voru ekkert mannlegur/ir og enginn var skapbresturinn (nema ef vera kynni eilífðarfýla gagnvart fólki sem efaðist, þ.e. hafði gagnrýna hugsun) eða annar mannlegur galli, sem var náttúrlega stór galli, því hvernig átti einhver að skilja slíkt!!
Það fór samt svo á endanum að menn vildu að "ein lög giltu á landinu" og undan feldinum kom sá dómur að hin nýinnfluttu trúarbrögð skyldu verða hin opinbera trú en hinir mættu blóta guði sína á laun.
Hver varð svo afleiðing þessarar ákvörðunar?!?
Jú, mikið rétt, ásatrúin nánast hvarf en hin trúin safnaði fullt af tómum kirkjum (smá ýkjur en sætanýtingin er að meðaltali örugglega innan við 5% á venjulegum messudegi)!!!
Lengi má örugglega þræta um réttlætingu þess að fela ásatrúna en afleiðingum þessa feluleiks verður varla á móti mælt og hér er einmitt komin lausnin á tjöruvandanum :)
Við einfaldlega hættum að reyna að banna fólki að reykja hvar og hvenær sem er heldur hvetjum það einfaldlega til þess að laumast til þess!!
Að vísu er það nú svo að þegar ég tala um hvatningu þá meina ég auðvitað þá sömu hvatningu og forfeður okkar fengu: Hörð viðurlög við því að stunda trú sína svo aðrir annarar trúar verði þess varir.
Sumir kynnu að halda að um félagslega útskúfun væri að ræða en í raun er þetta ekkert svo ósvipað notkun hlandskála! Þeir sem þær þurfa að nota gera það svo þeir sem þær þurfa ekki að nota (eða öllu heldur geta ekki með góðu móti notað) þurfi ekki að verða vitni að því ;)
Þess á milli eru að sjálfsögðu full samskipti á milli hópanna :)
Ólíkt hlandskálum þó yrði sú kvöð að ekki mætti auglýsa hvar afdrepin væri að finna því það væri lang-áhrifaríkast ef hver þyrfti að redda sér sjálfur því þá dytti út þessi tenging tjöru og hópamyndunar, þetta yrði miklu meira einstaklingspukur og því drægi vonandi úr "snjóbolta áhrifunum" sem fylgja því þegar einstaklingarnir forvitninnar vegna hætta sér of nærri leið "snjóboltans" og "klessast utan á hann" :)
Með því svo smám saman að kippa öllum tengdum hugtökum út úr daglegu máli þá mætti minnka líkurnar á því að næstu kynslóðir vissu af þessum "möguleika" en þá þyrfti auðvitað að afnema reyklausa daginn því það hugtak gæti vakið upp spurningar sem við myndum ekki vilja svara ;)
Vonandi fær enginn áfall við lestur þessarar greinar, þ.e. ef sá einstaklingur hefur gert sér þá mynd af mér að ég sé voðalega "dipló" (annað orð yfir að taka ekki afstöðu til að styggja engan), ég mátti einfaldlega til með að segja skoðun mína á þessu máli ;)
Hvort nú taki við mun ákveðnari skrif eða jafnvel að hinar öfgarnar taki við (öfgafullt afstöðuleysi!!) er erfitt að segja til um og reyndar nenni ég ekki að spá of mikið í það, geri bara það sem ég held að henti mér best hverju sinni :)
<< Home