Ritstífla

Saturday, July 15, 2006

Að vakna hlæjandi ...

Hvað er betri mælikvarði á góðan draum en það?!

Kom fyrir mig síðasta laugardagsmorgun, einstaklega hressandi :)

Man reyndar ekki nákvæmlega um hvað draumurinn snérist en það gæti einfaldlega verið vegna þess að ég fór að sofa aftur ...
En áður en ég fór að sofa þá gerðist ég svo framtakssamur að krota það helsta niður, að ég hélt, en þegar ég les það núna þá er þetta soldið torrætt :)

Aðalmálið var sem sagt að þar sem ég var staddur þá var tónlist í gangi og lagið virtist vera "street life" (með Brian Ferry) sungið á japönsku eða e-u öðru asísku tungumáli nema þar sem sjálfur titill lagsins átti að koma fyrir í viðlaginu þá kom í staðin mjög svo mislukkaður framburður á orðunum "wild world" sem hljómaði soldið eins og "væld völd" og var í þokkabót sungið með allt annarri laglínu ;)

Nú er ég ekki viss um að aðrir myndu vakna upp hlæjandi vegna svona lítilræðis og það þó ég myndi bæta við að umræðan í draumnum fór að snúast um fleiri svona dæmi eins og mjög innlifaða japanska útgáfu af "smells like teen spirit" þar sem söngvarinn var að rembast við að troða öllum þeim orðum sem til þurfti inn í hröðu kaflana með sinni "bassa"-rödd ;)

Hvað get ég sagt, ég er "léttilega glettur" :)
Og jafnvel líka "glettilega léttur"! ;)

Það sem ég skrifa í framhaldinu er hins vegar mjög illskiljanlegt en kannski er við því að búast þegar pennanum er stýrt af hálfsofandi einstakling sem í þokkabót er að reyna að lýsa draum!!
Alla vega, hér kemur það sem á eftir stóð:

Var að reyna að teikna ákveðna upplifun, e-r strákur var að reyna að gera það fyrir litlu systur sína og ég vildi besserwissast, e-ð sem maður gæti ekki "upplifað" meðan maður væri að gera e-ð annað!?

Já, ég skrifaði þetta en átta mig samt ekki á þessu, minnir samt að ég hafi í draumnum verið að reyna að hjálpa einhverjum að rissa e-ð á blað og skv. málsgreininni að ofan þá hef ég verið að reyna að festa e-r hughrif á blað sem ómögulegt væri að finna fyrir meðan maður væri að gera aðra hluti!!
Held að "japanska" lagið hafi forðað mér frá þessu erfiða verkefni ;)

Stundum er sagt að maður sé alltaf "sjálfum sér næstur" en það er bara ekki rétt!!
Hver hefur ekki einhvern tímann verði "frá sér numinn", "viti sín fjær", "alveg frá sér" og þar með "ekki með sjálfum sér"!!! :)
Svo er það hreinlega ekki hollt fyrir þá sem þrá dýpri skilning á hlutunum að vera sjálfum sér næstir því þá verða þeir "engu nær"! ;)

PS. Alveg er ég viss um að E.T. hefur verið fæddur í hlutverk vasaþjófsins!! :)

Sveinbjörn Pétur