Ritstífla

Sunday, January 01, 2006

Tvö-þú-sund-og-sex!!!!

Jæja, bara nýtt ár og það gamla fór í hvelli (ennþá með hellur, púðurflyksur í hárinu og stíflaður og hás af mekkinum) :)

Heilu fjölskyldurnar fullar, krakkarnir óþreyjufullir, foreldrarnir blindfullir, gamlir frændur, frænkur, ömmur og afar sumir fordómafullir og ekki má gleyma þeim sem toppa þetta með því að vera ástríðufullir (hvaða merkingu sem menn vilja annars lesa út úr orðinu ;) )

Talandi um orðið "fullur", fólk sækist allt of mikið eftir endanleikanum, fólk vill verða "fullfært", "fullkomið" og "fullorðið" auk þess sem sumir eru titlaðir sem "fulltrúar".
Ef við spáum aðeins í því þá hittum við aldrei "fullorðið" fólk, þ.e. fólk sem "verður ekkert meir" enda væri það soldið hrollvekjandi að mæta einum "fullorðnum" í myrkri eins og allar myndirnar um uppvakninga hafa frætt okkur um í gegnum tíðina ;)

Eins er þetta með fullkomið fólk, það á aldrei að setja sér markmið að verða fullkominn því flestir eru ekkert á leiðinni að ná því fyrir utan "hvað svo" vandamálið og auðvitað sorglegar grafskriftir: "Hér hvílir Jónmundur Sigurbjartur Þortýrsson, hann náði því að verða fullkominn áður en hann lést"!!
Þar fyrir utan er auðvitað hræðilegt að vera nálægt fólki sem heldur eða jafnvel heldur því fram að það sé fullkomið en þar fyrir utan er auðvitað alveg hræðilegt þegar maður fær þá grillu í höfuðið að einhver annar sé svo gott sem fullkominn því þá getur maður átt erfitt með að nálgast þá manneskju, veit ekki hvernig maður á að haga sér :)

Það er nú reyndar alveg gott og blessað að stefna að því að verða fullfær, ef maður svo bara áttar sig á því þegar maður nálgast þau mörk sem maður miðaði við í upphafi að maður getur svo sem alltaf gert betur og eins að stundum þarf maður bara ekki að gera best heldur bara nægjanlega vel, það er allt of mikið um "over-optimizers" (skyldi það þýðast sem "of-bestarar") ;)

Hvað "fulltrúana" varðar þá gæti ég örugglega ekki orðið góður "fulltrúi" því ég virðist alltaf efast eitthvað um allt, meira að segja fór ég að efast um að það ætti við um alveg allt þegar ég var að skrifa þetta ;)

Annars gæti ég líklegast ekki heldur orðið "formælandi" neins fyrirtækis sem ég ynni hjá eða ætti því ég gæti ekki hugsað mér að vera tengdur fyrirtæki eða samtökum sem ég fyndi mig knúinn til að "formæla" ;)

Smá gáta í lokin, hvaðan er þessi tilvitnun?:

"Add a dab of lavender to milk; leave town with an orange, and pretend you're laughing at it."

Heyrumst :)