Ritstífla

Wednesday, February 01, 2006

Athyglirör

Ég man óljóst eftir því þegar ég var í grunnskóla í íþróttum hvað maður var óþolinmóður að byrja á boltahluta tímanna en hafði það sterklega á tilfinningunni að upphitunin myndi engan enda taka.

Ég er reyndar enn á þeirri skoðun að maður sé kominn út í einhverjar öfgar í íþróttaiðkun þegar maður stundar íþróttir einungis af skyldurækni og/eða harðri samkeppni.
Upphitun hefur samt fengið örlítið jákvæðari merkingu í mínum huga þó ég geti eiginlega með engu móti fengið mig til að stunda einhver hlaup nema þá stöku spretti ef markmiðið er að ná til bolta eða einhvers annars takmarks í hópíþróttum.
Ég held þetta sé aðallega eirðarleysi því mér finnst yfirleitt ekkert erfitt að keyra mig áfram í stuttan tíma eða þá í lengri tíma með mikilli fjölbreyttni. Þetta er þó ekki "eirðaleysi í fótum" því það virðist vera e.k. "heilkenni".

Annar hlutur sem reynir mikið á þolinmæði mína er fyrirbæri sem maður var skikkaður til að gera eftir æfingar þegar maður var yngri en svo kom e-t millibils ástand þar sem hætt var að skipa manni fyrir og seinna lenti ég meira að segja í því að einhverjir töluðu beinlínis um óhollustu og hættur sem fyldu þessu.
Hér er ég auðvitað að tala um teygjur og þó maður sé farinn að fikra sig áfram með þetta aftur þá "býr" maður ennþá að því að hafa verið leyft að ráða hvort maður sleppti þeim á tímabili, að ég tali nú ekki um þann áróður sem rekinn var gegn teygjum í hópi stráka sem ég stundaði eitt sinn fótbolta með (hryllingssögur um lausa ökkla höfðu mikil áhrif, meira að segja á teygjur á alls óskyldum vöðvum).
Það er kanski ekki skrítið að þegar ég hóf að stunda TDK (Tae Kwon Do) sumarið 2005 þá var maður spurður að því hvort maður hefði stundað fótbolta og það fylgdi sögunni að þeirra reynsla af eldri nýliðum væri sú að stirðastir væru þeir sem kæmu úr boltanum.

Í augnablikinu er ég hvorki að stunda "hnjábana" (fótbolta) eða teygjur en það er einfaldlega vegna þess hve mikið ég hlífi mér vegna nýlegra hnjámeiðsla en þegar það lagast þá reikna ég ekki með miklu boltasparki heldur munu teygjurnar og hættuminni íþróttir aukast til muna.

Það eru væntanlega til öfgar í öllu, ofálag vegna ofþjálfunar, tímaleysi vegna of þéttrar æfingaáætlunar, svefnleysi af sömu orsökum, sjálfsmyndarbrenglun (allt snýst um markmiðið, einstaklingurinn verður lítið annað en mælipunktur á stikunni milli upphafs og markmiðs) og svo auðvitað "regnboga vandamálið" þ.e. takmarkið sem allur tíminn fer í að ná breytist stöðugt og færist undan, stundum jafnvel hraðar en ávinningurinn í átt að því.

En ætli þetta sé ekki bara eins og með peningana og söfnun þeirra, flestir geta bent á utanaðkomandi dæmi um einstaklinga sem gengið hafa lengra en þeir ættu að þurfa í söfnun auðs en fæstir eru til í að viðurkenna að þeir séu eiginlega komnir með alveg nóg sjálfir ;)

Það er því vissulega hægt að verða óþarflega sterkur, og væntanlega einnig óþarflega lipur þó mælikvarðinn á það hvenær það er orðið óhagkvæmt sé auðvitað tíminn sem menn fórna í það frekar en styrkurinn og liðleikinn sem menn ná :)

Hér er t.d. einn í liðugri kantinum, skyldi hann hafa fórnað tíma frá fjölskyldu og vinum og þarf hann þennan liðleika í raun og veru ;)

Svo smá orðaföndur í tilefni af EM:

"Þökk fyrir alla stuðningsmennina, við vorum nefnilega alveg að sligast undan öllum áhangendunum"

Ef einhver er að velta fyrir sér fyrirsögninni þá er þetta einfaldlega orð sem ég rak augun í (óeiginleg merking) og næstum því tærnar í (eiginleg merking) haustið 2005 og hef séð annað slagið síðan þegar ég er á ferðinni í vinnunni, alltaf á sama stað, hvergi annars staðar ;)

Heyrumst :)