Að falla í kramið!!
Ekki gott ef maður er bifvélavirki ...
Var annars að láta mér detta í hug að gott væri að búa til nýja lífsreglu.
Nú hafa ýmsir lýst efasemdum um að "lífið sé leikur" en ég er hins vegar harður á því að það sé einmitt málið, lífið ER leikur, maður þarf bara að fatta leikreglurnar ;)
Eins er lífið að sjálfsögðu dans á rósum, gallinn er bara sá að sumir eiga það til að stíga oftar á þyrnana en "iljarnar þola"!!
En aftur að nýju lífsreglunni, vandamálið við rökræður er sá að sumum hættir til að villast yfir mörkin milli rökræðu og rifrildis en þau mörk er einfalt að finna með dB-mæli eða með því að hlusta eftir lengd og fjölbreytni í orðavali (er þó ekki ennþá búinn að finna sérhæft mælitæki fyrir það) því rifrildismegin eru orðin fábreyttari og oftast eins-atkvæðis (nei, jú, víst, ....).
Hvernig kemur maður þá í veg fyrir rifrildi?
Nýja lífsreglan reddar því, kannast einhver við leikinn "frúin í Hamborg"?
Við einfaldlega setjum þá reglur um rökræður að sá sem fyrr hækkar röddina upp fyrir fyrirfram umsaminn hljóðstyrk tapar rökræðunum og eins geta menn ekki svarað fyrir sig með eins-atkvæðis orðum oftar en 4 sinnum og svo má líka takmarka eitthvað fjölda endurtekninga (að fyrirmynd þráteflis-reglna í skák).
Væri ekki hreinn unaður að horfa á umræðuþátt í sjónvarpinu þar sem fyrir utan þáttarstjórnandann þá væri dómari og aðstoðarmenn með skeiðklukkur og mælitæki og eftir bendingum þeirra þá myndi hann skyndilega flauta og vísa einum þátttakandanum úr myndverinu og gefa bendingu sem gæfi til kynna hvers eðlis brotið væri (hljóðmúr rofinn, ítrekunarbrot, atkvæðaekla, ...).
Gaman að sjá stjórnmálamennina svitna, ekki af áreinslunni við að þenja raddböndin, heldur vegna þanþols þolinmæðinnar ;)
Þetta myndi kenna fólki þá tækni að blóta brosandi ;)
Heyrumst :)
Sveinbjörn Pétur
<< Home