Ritstífla

Sunday, March 04, 2007

Að hafa vaðið fyrir neðan sig!!

Sumt fólk veður í villu!
Sumir vaða á súðum!
Einhverjir vaða í seðlum!
Margir vaða úr einu í annað!
Sagt er að til séu þeir sem "vaði reyk"!
Allt er vaðandi í spillingu!
Sumir/sumar vaða í kerlingum/körlum/(báðu)!!

Þá er nú miklu einfaldara að vera tungl!!
Ef það á annað borð veður þá er það bara í skýjum!!! ;)

Saturday, February 17, 2007

Ær og kýr....

Fyrir fáeinum tímum sat ég fyrir framan sjónvarpið og var að bíða eftir því að þáttur í Battlestar Galactica hæfist á Skjá einum (já ég er "kræktur"!!) og skipti reglulega yfir á "sjónvarp lýðveldisins" þar sem fólk var að missa sig í "Evrópu-sýninni".
Ekki svo sem í frásögu færandi, allir sigurvegarar (eins og í kosningum pólítíkusanna) og flestir viðurkenndu formúlusmíð en eitt fékk mig til að hlæja upphátt:
Fréttamaður: Nú er mér sagt að þú sért mikill hestamaður (spurnartónn í fullyrðingunni!).
Höfundurinn: Já, hestaferðalög eru mínar ær og kýr!

Af hverju tókst aumingja manninum ekki að flækja saman fleiri nytjadýrum í svar sitt, ég spurði sesunaut minn (ég skildi þetta nefnilega sem "hestar eru mínar ær og kýr") hvort maðurinn væri með þessu að lýsa því hvernig hann nýtti hrossin sín!! ;)


En að allt öðru!
Ég legg til að ef þessi Lewis flytur til Íslands sem fullorðinn maður þá taki hann sér upp íslenska nafnið Kristinn!


Að lokum spurning sem hefur brunnið á mér í áratug eða meira:
Hver er þessi Flatus!?!

Sunday, December 31, 2006

Áramót!!

Rosalega var þetta síðasta ár fljótt að líða!!

Nú þegar aðeins u.þ.b. 4 klst. eru eftir af þessu ári þá er maður bara nokkuð sáttur, sérstaklega með seinni hlutann :)

Þó auðvitað hefði verið flott að fá "svalt" veður um áramótin þá er ágætis tilbreyting í "suddalegu" veðri eins og einn morgunhaninn á "Gufunni 2" kallaði blautviðrið :)

Smá nöldur hérna:
Finnst einhverjum öðrum en mér "uppsagnar-KB-banka" auglýsingarnar vera hallærislegur vottur um veruleikafyrringu þeirra sem hafa mannaforráð gagnvart almenningi sem hafa á hinn bóginn engan húmor fyrir hættunni á að missa vinnuna vegna skipulagsbreytinga "matador-mannanna"!?!?

Annars vona ég að á nýju ári muni fólk breyta verðmætamati sínu þannig að krónutalan skipti minna máli en brosstuðullinn hækki þeim mun meira :)


Að lokum nokkrar vangaveltur í tilefni tímamótanna:

Skyldi engum hafa dottið það í hug að halda róðrakeppni og kalla viðburðinn "áramót"?

Eins væri mögulegt að finna einhverja fislétta og níðsterka málmblöndu og hella deiglunni í "áramót" til að búa til léttar og sterkar árar :)

Að lokum gætu þeir sem trúa á hið yfirskilvitlega skilgreint samkomu púka sem "áramót" ;)

Tuesday, December 26, 2006

Geðileg græn jól!! :)

Vona að enginn hafi fokið eða rignt niður um þessi jól!! :)

Merkileg þróun þetta með innkaupametið, bráðum fer að verða nauðsynlegt að notfæra sér Photoshop því enginn mun hafa tíma til að hitta ættingjana um jólin því allur tíminn fer í að afla tekna til og eyða þeim svo í gjafir og þá er nú gott að hver taki bara mynd að sjálfum sér sem síðan má líma saman í umræddu forriti ;)

Ekki veit ég hvort það fái nokkurn hljómgrunn en samt verð ég að reyna að leggja mitt að mörkum og hvetja til þess að ef fólk vill endilega gefa gjafir á næstu jólum þá skuli það leggja saman í púkk til að gefa yngstu meðlimunum nú eða hreinlega föndra eitthvað jólaskraut saman og spila.
Árangurinn yrði stórkostlegur og margvíslegur:
1. Meiri samvera
2. Minni kortaskuldir
3. Minna rusl
4. Minna um "tískugjafaslys" (margir gefa sömu gjöf, tíska í stað smekks þyggjandans)
5. Meira rekstraröryggi verslana (jólavertíðin er fullmikið happdrætti eins og er)
6. Mun minna stress

Örugglega eitthvað fleira, sem rifjast upp fyrir mér síðar ;)

Ef maður hefur "ráð undir rifi hverju" og rifin eru jú frekar mörg, er maður þá ekki alveg svakalega "ráðríkur"!?!

Wednesday, November 15, 2006

Tæknileg mistök!!

Ég hef hér með ákveðið að í hvert sinn sem einhver sakar mig um að hafa gert eitthvað rangt þá muni ég reyna að róa hlutaðeigandi með því að ég hafi aðeins gert "tæknileg mistök"!!!

Þetta virðist svínvirka eða það mætti a.m.k. halda það því bæði heilu ríkisstrjórnirnar og fyrrum "skammtíma-gestir" ríkisins nota þetta orðalag þegar þeir eru sakaðir um misalvarlega hluti, allt frá grjótgirnd upp í fjöldalífstyttingar!!

Fyrstu "tæknilegu mistökin" sem ég tel skyldu mína að viðurkenna eru auðvitað þau að hafa undanfarinn einn og hálfan mánuðinn drekkt lesendum þessa bloggs í færslum! Ég á bara eftir að finna út nákvæmlega á hvern hátt tæknin brást mér í þeim efnum :)

Svo var ég nú reyndar að rifja upp rétt áðan að þegar ég var á unglingsaldri þá datt mér í hug að prófa hvernig það væri að hjóla með hægri hönd á vinstri stýrisenda og vinstri höndina á þeim hægri!
Þetta gékk bara fínt lengi vel meðan ég hjólaði beint, reyndar svo vel að þegar kom að því að ég þurfti að taka hægri beygju svolitlu síðar þá var ég greinilega búinn að gleyma víxlinu, hallaði mér í beygjuna og beitti höndunum á mjög svo venjulegan hátt ... með harla óvenjulegum afleiðingum!!!

Er til tíma-úrgangur?! (e. waste of time)
Ef litir ormar myndu sjá um að láta úrið mitt ganga væri þá hægt að tala um lífrænan úrgang!!??

Heyrumst :)

Wednesday, September 27, 2006

Afar gamlir ...

Síðasta mánudagskvöld fékk ég þær fréttir að annar hálfbróðir minn væri orðinn afi og að sjálfsögðu varð ég gráhærður á einni nóttu í samúðarskyni ;)
Ég geymi reyndar þessi gráu hár undir húðinni og dreg þau bara fram við
viðeigandi tilefni :)

Þetta gerir mig þá hálfafabróðir sem hljómar reyndar soldið eins og bróðir
minn sé hálfafi hvað sem það nú þýðir ;)
Það er a.m.k. ljóst að ekki er ég hálfbróðurafi eða bróðurhálfafi eða
afabróðurhelmingur eða bróðurafahelmingur ;)
Var allt í einu að fatta þetta, útilokunaraðferðin, átti eftir einn
möguleika af sex en sá er einmitt sá rétti, nefnilega afahálfbróðir!! :)

Þetta þýðir reyndar að ég á langafa fyrir föður, sem hljómar reyndar eins
og nokkuð góð skifti ;)

Annars ákvað ég að þar sem engin skipulögð hreyfing var hjá mér
eftir vinnu í gær að rölta niður Laugaveginn, hef aldrei beinlínis
heillast af Þorláksmessubröltinu þar niðureftir en nú var loksins góð
ástæða til að slíta sólunum auk þess sem múgurinn var allur að fara
niðureftir svo þetta gekk örugglega betur en á Þorláksmessunni þar sem
allir ráfa stefnulaust í stressinu ;)
Hefði reyndar kosið að Ómar hefði gert þetta fyrr, þó auðvitað sé kannski
áhrifaríkara að vera kominn með landskika sem "píslarvott" ...

Er píslarvottur e.t.v. smæsta af smáu, þ.e. rétt svo vottur af písl, eiginlega barasta ósýnilegt ;)

Var í gær að koma með vöru inn á stóran lager þar sem einn var að hamast á
lyftara og ætlaði að henda í hann nótunni til kvittunar en sá frábauð sér
eiginhandaráritunina á þeirri forsendu að hann væri ekki "að vinna hérna",
ég reyndi á móti að koma honum í skilning um að bæði væri hann einmitt
"hérna" og mér sýndist hann vera að vinna, a.m.k. væri þetta all undarlegt
tómstundargaman ef það væri málið :)
Hann virtist ekki skilja útúrsnúninginn ;)

Entur = viðvera = Gosi ...

Tuesday, September 19, 2006

Ný leið til að stíga af hjólinu ...

Í gær, hálf sex eftir hádegi, var ég á leið í bandý á hjólinu þegar allt í einu gengur manneskja út úr bakaríi í veg fyrir hjólið, ég bremsa að aftan en það dugir ekki til svo ég negli niður með frambremsunni og finn hvernig hjólið snarstoppar og byrjar að steypast!!
Nú sér fólk e.t.v. fyrir sér undirritaðann og hjólið í einni flækju á gangstéttinni ásamt íþróttadótinu en nei niðurstaðan varð víst allt önnur og furðulegri!!
Venjulega hefði ég ríghaldið í stýrið og tekið því sem verða vildi en það næsta sem ég vissi var að ég tók 2-3 skref á stéttinni og bar fyrir mig hendurnar (því ég var um það bil að rekast á grunlausann vegfarandann) en fyrir aftan mig heyrðust skellirnir þegar hjólið rúllaði! Mér hafði sem sagt tekist að stíga af hjólinu yfir stýrið ;)
Tek það samt fram að ég muni samt framvegis reyna að nota mína venjulegu aðferð við það að koma mér niður af hjólinu :)




Fólk tekur því misvel þegar það gerist líffæraþegar, margir eru sallarólegir yfir tilbreytingunni en þessum stóð reyndar ekki á sama!!

A:"Við skulum skreppa saman útí búð"
B:"Ertu viss, stíga þá ekki hinir viðskiptavinirnir ofan á okkur í ógáti"?

Heyrumst :)