Ritstífla

Wednesday, December 28, 2005

Þoddláksmessa!!!

Lengi vel stóð ég í þeirri meiningu að ég væri aðeins með "hálf-Skaftfellskan" framburð!

Þannig er nefnilega mál með vexti að ég heyrði talað um svokallaðann "rn/rl" framburð þegar ég var í framhaldsskóla og vissi að ég var soldið raddaður í "rn" og skólafélagar mínir frá því í barnaskóla (sem ég ber fram með "rn" en ekki sem "badnaskóli") kannast við það að ég sagði Birna þegar þeir sögðu flestir "Bidna" (eins með járn og hérna/þarna).
Hins vegar sagði ég "vardla" þegar ég bar fram orðið "varla" þó að vísu segðu sumir hinna "vadla" :)

Rétt fyrir þessi jól komst ég hins vegar að því að rótgróin útvarpsrödd á Rás 2 (ein sem er alltaf með auglýsingarnar á Rás 1/Rás 2, síðustu 69 árin eða svo) talaði um Þoddláksmessu-eitthvað í einni auglýsingunni og fattaði um leið að í a.m.k. þessu tilfelli notaði ég "rl"-framburð eða því sem næst. Svo ég er e.t.v. oggolítið "Skaftfellskari" í framburði en ég hélt ;)
Tek það þó fram að ég hef aldrei búið á Suð-Austurlandi en bjó lengi í Hveragerði. Engin "hv"-framburður þó ;)

Annars þjáist ég af ákveðinni meinloku með "guð", því þegar ég þarf að gefa upp fullt nafn (Sveinbjörn Pétur Guðmundsson) þá segi ég einmitt "Guðmundsson" en ekki "Gvuðmundsson" en samt segi ég "Gvuðmundur" og "Gvuðmundsson" í nöfnum allra annarra, spurning hvort þetta séu bara leifar frá því hvernig ég talaði sem krakki og það komi alltaf fram í þau fáu skipti sem ég gefi upp fullt nafn ;)
Annars segði ég oft "gónó'gu'gei'mi'i" áður en ég fór að sofa þegar ég var lítill ;)

Smá gáta í lokin. Hvað þýðir "karta karta"?

Heyrumst :)

Monday, December 26, 2005

Mannvinur?

Heyrði á einhverri útvarpsstöðinni í síðustu viku viðtal við einhvern meðlim hóps sem kallar sig Hrútavinafélagið. Man reyndar ekki margt úr viðtalinu enda var ég að vinna en þó festist eitt atriði. Þeir ætluðu nefnilega að slátra hrút með einhverjum fornum aðferðum.

Nú segi ég nú bara, ef það er ekki nógu óvinsamlegt að slátra vinum sínum hvað segir maður þá um þann sem ákveður að nota til þess gamlar og úreltar aðferðir þar sem skyndidauði er e.t.v. ekki tryggður!!!

Ég er því ekki lengur viss um að ég vilji kalla mig mannvin opinberlega alveg á næstunni því ekki vil ég að vinir mínir fari að óttast mig.....

Annars smá gáta í lokin. Hver er merkingarmunurinn á eftirfarandi setningum:

A: Vél smurð vel.
B: Vel smurð vél.

Soldið lúmskt en munur samt segi ég :)

Heyrumst :)

Saturday, December 24, 2005

Mild Jól :)

Til að byrja með vil ég nú óska þeim sem þetta lesa gleðilegra og umfram allt notalegra og afslappandi jóla, fólk verður hreinlega að einbeita sér stíft og hamast við að hvíla sig þessi jólin, því þau eru svo afskaplega stutt þetta árið :)

Tek það strax fram fyrir þá sem ég "boðaði" hingað með SMS að ég mátti til með að prufa að "plögga" síðunni minni um leið og ég færi í gegnum listann af símanúmerum í "gemsanum" mínum og sendi öllum þar sem ég hef eitthvað spjallað við að ráði jólakveðju ;)
Smá sjokk að sjá símann segja að fjöldinn sé 101 :)

Ég veit að sumir eru eitthvað að pirra sig yfir "lit" jólanna, tala væntanlega um rauð jól, eitthvað vanti upp á hvíta litinn. Þarna held ég að sé soldill misskilningur á ferðum, bestu jólin fyrir nútíma fólk eru einmitt svona: Hlýtt í veðri, góð færð á vegum og sólin ekki í augun á þeim sem þurfa að aka um milli jólaboða og dreifa pökkum :)
Auk þess er þessi hlýi og mildi grái litur einmitt það sem til þarf til að reyna að slá á jólastressið hjá sumum ;)

Sjáumst/heyrumst sem fyrst :)

Sveinbjörn Pétur