Ritstífla

Thursday, January 19, 2006

Volk og varmi ....

Var að aka í vinnunni nýlega og sá þá sólina gægjast fram og þá kom þessi magnaða birta sem kemur yfirleitt bara þegar allt er á kafi í snjó :)
Þetta minnti mig á skólaskíðaferðirnar frá því í grunnskólanum sem í minningunni voru alltaf farnar í glampandi sól og logni ;)
Eftir langan dag á skíðum þá kom maður oftast frekar kaldur inn í skálann og þá var svo ótrúlega notalegt að setjast upp við næsta rafmafnsofn og setja iljarnar og bakið upp að og finna svo hvernig hitinn mýkti mann allann upp, þvílíkt þægilegt og maður var ekkert að vilja yfirgefa ofninn, ekki ósvipuð tilfinning og heitur pottur nema hvað húðin soðnaði ekki eins og í vatninu og því "endalaus unaður" ;)

Það er eiginlega samt svo að mér hefur ekki þótt neitt spés að setjast upp við ofn nema þegar ég er búinn að kólna niður við eitthvað basl í snjó en þá er það líka tóm sæla :)

E.t.v. er þetta líkt og þegar maður breiðir sængina upp fyrir haus og andar í einhvern tíma að sér stöðnuðu loftinu því þegar maður dregur sængina svo aftur frá andlitinu þá er þetta venjulega andrúmsloft í herberginu allt í einu eitthvað svo óhemju ferskt :)

Önnur svona sæluminning um öfga er þegar ég fór í kalda sturtu um borð eftir að hafa labbað úti á Spáni í hitanum í talsverðan tíma sumarið '89, ég var talsvert lengi undir bununni áður en mér fór að finnast vatnið kalt ;)

Ef nöfn hefðu áhrif á það hvernig einstaklingurinn yrði, þ.e. segðu til um eiginleika fólks, þá væri tilvalið að velja til starfa sem sigmenn hjá þyrlusveit gæslunnar eða til eggjatöku menn sem hétu "Sigfús" ...

Það er stundum sagt á Ensku: "If life gives you lemons, make lemonade" þegar eitthvað bjátar á í lífinu.
En fyrir "magnaða" fólkið og ofurhetjurnar þá yrði þetta líklegast:

"If life gives you powers, make powerade" ;)

Heyrumst :)

Tuesday, January 17, 2006

"Myrtu mig mjúklega"

Þó þessi orð hafi eflaust ekki verið Theo van Gogh efst í huga í nóvemberbyrjun 2004 þá var ég að uppgötva tengingu, frekar langsótta að vísu, frá laginu "Killing me softly" sem "flakkarinn" samdi og flutti í eitt sinn og Fugees endurgerðu að þessum leikstjóra, sjáið þið samhengið?
Meira um það síðar :)

Annars er Íslenskan alls ekki "víxlið mál" merkingarfræðilega séð eins og svo mörg dæmi sanna t.d. er mikill munur á því að "láta skeggið vaxa" eða "láta vaxa skeggið"!!
Það er meira að segja ekki sérlega vel merkingarfræðilega "tengið" sbr. setninguna "hundar bitu menn og konur, hlupu burt og geltu", fer alveg eftir því hvort þetta var sett saman úr "hundar bitu menn og konur" og "hlupu burt og geltu" eða "hundar bitu menn" og "[ritskoðað]"!
Setningin hér á undan er fengin að láni frá einhverjum fræðum um mikilvægi kommusetninga :)

Smá gráslepjuæfing:
Nefnið 4 "eighties" smelli sem komu fram í sinni hverri bíómyndinni frá þessum tíma með sínum hvorum flytjandanum en voru allir samdir af Giorgio Moroder, (hint: tNeS, ED, F, TG)

Heyrumst :)

Saturday, January 14, 2006

Vinsamlegast drepið á bílnum!!!

Ef það er vinsamlegt hvað er þá óvinsamlegt!!

Annars hefur maður séð ýmsa spekina í stuttum heimsóknum á leikskólana og kannski bara eins gott því yfirleitt fer ég þaðan svo gott sem tómhentur þrátt fyrir að koma nánast alltaf með heilmikið af verðmæti til þeirra ;)

Fyrir nokkrum mánuðum sá ég t.d. titil á bók sem var eitthvað é þessa leið: "Everyone has got a shadow except ants" ...

Svo sá ég síðasta föstudag (13. jan. 2006) skrifað á örlítinn miða á einni hurðinni "vinsamlegast lokið dyrunum" og ég er næstum því viss um að ástæðan fyrir því að ég tók eftir þessu er sú að á flestum stöðum þar sem ég hef séð "beiðni um lokun" þá er það einhverra hluta vegna hurðin sem manni er ætlað að loka!!!
Ef þið vitið um einhverja sem er enn að basla við að reyna að "loka hurðum" þá getiði sagt þeim frá mér að næst skulu þeir ekkert vera að loka skápum og gosfloskum heldur ættu þeir að gæta samræmis og loka bara skápshurðum og gostöppum! Svo ættu þeir auðvitað ekki að þurfa að byrgja brunninn því börnunum hlýtur að vera óhætt ef þeir bara tryggja það að hlemmurinn sé lokaður ;)

Annars er alveg magnað allur sá "fróðleikur" sem stofnanir samfélagsins mata okkur með:
Leikskólinn fræðir okkur um jólasveina og skuggalausa maura.
Kirkjan telur okkur trú um að til sé fullkomið góðviljað afl sem fer samt í "eilífðar fýlu" út í þá sem ekki trúa blint á einkennilega ósannaða hluti í lifanda lífi.
Bankarnir telja okkur trú um að með því að skera eigin neyslu alveg við nögl meðan maður er á besta aldri en lána þeim aurinn þess í stað til áhættufjárfestinga þá muni maður verða forríkt elliært gamalmenni og engu skipti þótt heilsan sé farin í öllum þessum sparnaði þegar þar að kemur.
Málpípur ríkisvaldsins reyna svo að telja okkur trú um að "hagvöxtur" sé hugtak sem færi öllum hamingju þó svo að stóraukinn innflutningur á jeppum hafi eitt sinn verið marktækur hluti þessarar stærðar og þar fyrir utan virðist velta skipta mestu máli óháð því að þar sé ekki gerður skýr greinarmunur á skuldum og eignum! Látum bara hjól atvinnulífsins snúast hraðar og hraðar þangað til hagkerfið bræðir úr sér og þegnarnir brenna út andlega og líkamlega!
Mögnuð líking þetta með kökuna sem sé alltaf að stækka og þar með megi misskipta henni fyrir vikið, eini gallinn er að þar sem aukinn kaupmáttur launa miðast við meðallaun þá eru góðar líkur á því að á meðan misskiptingin eykst þá aukist kaupmáttur meðallauna það lítið að kaupmáttur lægstu launa nái ekki að fylgja verðlaginu og rýrni því í raun!!

Er það furða þótt stór hluti fólks trúi fáránlegustu hlutum þegar stofnanir þjóðfélagsins sameinist um að "uppfræða" það frá unga aldri ;)

En eins og sagt er á ensku "ignorance is bliss" og því eru örugglega talsvert margir sem eftir góðan dag á skrifstofunni þar sem náðist að minnka launakostnaðinn um 17%, leggjast til hvílu í rúminu heima á aðventunni vitandi það að þar sem þeir hafi nú blíðkað hinn uppstökka, fýlugjarna, refsigjarna en þó fullkomna "yfirmann" sinn með reglulegum heimsóknum einu sinni í viku að hlusta á handahófskenndan útdrátt úr mótsagnakenndum sagnabálki, þá sé framtíð þeirra tryggð og þeir muni án nokkurs vafa fá smá hagvöxt í skóinn frá jólasveininum ;)

Smá gáta í lokin, ekki svinla með því að leita á netinu að báðum orðunum saman ;)

Hvað er meint með: "Technicolor Yawn"?

Saturday, January 07, 2006

Lofthæna 12

Þar sem ég hef aldrei (svo ég viti til) verið skráður í "C&C" (e. Cast and Crew) í neinu þeirra verka sem skráð eru á http://www.imdb.com/ þá er ekki búið að útvega mér "Bacon-number" og þar sem ég hef ekki heldur (svo ég viti til) skrifað grein í samstarfi við annan stærðfræðing (né heldur án samstarfs) þá er ég ekki heldur búinn að verða mér úti um "Erdős-number"!

En ég dey ekki ráðalaus og hef því ákveðið að búa mér til mitt eigið viðmiðunarkerfi :-)
Nú heldur fólk að ég hafi ákveðið að hanna "Sveppa-töluna" en þó ég fái það nú oft á tilfinninguna að ég sé nafli alheimsins þá hef ég ákveðið að nota annan einstakling sem viðmið (enda er Bacon ekki miðpunktur "Kristþyrniskógs") ;-)

Í mínu kerfi er ég með 12 sem "Lofthænu-tölu"! :-)
"Hvernig færðu það út" spyrjið þið eflaust, jú ég einfaldlega tel skrefin sem ég þarf að taka frá mér í gegnum ættartréð undir Íslendingabók að eina skráða einstaklingnum hjá þeim með þessu nafni (8 skref upp að sameiginlegum forföður og 4 skref niður að Lofthænu) :-)

Ég er sem sagt "Lofthæna 12" ;-)

Tuesday, January 03, 2006

Military intelligence

Þetta er dæmi um það sem á ensku kallast "oxymoron" en auðvitað er soldil friðarpólitík fólgin í því að telja þetta með sem "oxymoron". Skýrara dæmi væri auðvitað "living dead" (eða jafnvel "head butt" og "pretty ugly") :)

Fleiri "oxymoron" má m.a. finna á slóðinni:
http://www.oxymoronlist.com/

Þetta leiðir hugan auðvitað að "hálf-dauðum köttum", því köttur sem er bæði lifandi og dauður hlýtur eiginlega að vera "hálf-dauður/hálf-lifandi" en þessir óheppnu kettir koma helst við sögu í skammtafræði sem hér telst grein innan eðlisfræðinnar en ekki innan lyflækninga eins og einhverjum hefði hugsanlega dottið í hug ;)

Annars eru tvö hugtök sem koma upp í hugann þegar ég spái í "oxymoron".
Ef maður fer út í búð og ætlar að kaupa ákveðinn hlut sem vanalega er á sölulista búðarinnar þá má ætla að varan sé annað hvort til eða þá að hún sé búin, hvað má þá segja um það ef varan er "tilbúin" eða "búin til"?! :)
Ef sagt er um einhverja manneskju sem er í góðu hlaupaformi þ.e. "þolin" að hún mæðist seint hvað þýðir þá eiginlega það að segja að einhver manneskja sé "þolinmóð"?! ;)

Tvær tilvitnanir í lokin:

Þessi hljómar skondið :)
"Do infants have as much fun in infancy as adults do in adultery"?

Þessi er eitt besta andsvar við "stríði í þágu friðar" sem ég man eftir ;)
"Fighting for peace is like fucking for virginity"

Reyndar soldið lélegar tilvitnanir því ég veit ekki í hverja ég er að vitna!! :)

Heyrumst :)

Sunday, January 01, 2006

Tvö-þú-sund-og-sex!!!!

Jæja, bara nýtt ár og það gamla fór í hvelli (ennþá með hellur, púðurflyksur í hárinu og stíflaður og hás af mekkinum) :)

Heilu fjölskyldurnar fullar, krakkarnir óþreyjufullir, foreldrarnir blindfullir, gamlir frændur, frænkur, ömmur og afar sumir fordómafullir og ekki má gleyma þeim sem toppa þetta með því að vera ástríðufullir (hvaða merkingu sem menn vilja annars lesa út úr orðinu ;) )

Talandi um orðið "fullur", fólk sækist allt of mikið eftir endanleikanum, fólk vill verða "fullfært", "fullkomið" og "fullorðið" auk þess sem sumir eru titlaðir sem "fulltrúar".
Ef við spáum aðeins í því þá hittum við aldrei "fullorðið" fólk, þ.e. fólk sem "verður ekkert meir" enda væri það soldið hrollvekjandi að mæta einum "fullorðnum" í myrkri eins og allar myndirnar um uppvakninga hafa frætt okkur um í gegnum tíðina ;)

Eins er þetta með fullkomið fólk, það á aldrei að setja sér markmið að verða fullkominn því flestir eru ekkert á leiðinni að ná því fyrir utan "hvað svo" vandamálið og auðvitað sorglegar grafskriftir: "Hér hvílir Jónmundur Sigurbjartur Þortýrsson, hann náði því að verða fullkominn áður en hann lést"!!
Þar fyrir utan er auðvitað hræðilegt að vera nálægt fólki sem heldur eða jafnvel heldur því fram að það sé fullkomið en þar fyrir utan er auðvitað alveg hræðilegt þegar maður fær þá grillu í höfuðið að einhver annar sé svo gott sem fullkominn því þá getur maður átt erfitt með að nálgast þá manneskju, veit ekki hvernig maður á að haga sér :)

Það er nú reyndar alveg gott og blessað að stefna að því að verða fullfær, ef maður svo bara áttar sig á því þegar maður nálgast þau mörk sem maður miðaði við í upphafi að maður getur svo sem alltaf gert betur og eins að stundum þarf maður bara ekki að gera best heldur bara nægjanlega vel, það er allt of mikið um "over-optimizers" (skyldi það þýðast sem "of-bestarar") ;)

Hvað "fulltrúana" varðar þá gæti ég örugglega ekki orðið góður "fulltrúi" því ég virðist alltaf efast eitthvað um allt, meira að segja fór ég að efast um að það ætti við um alveg allt þegar ég var að skrifa þetta ;)

Annars gæti ég líklegast ekki heldur orðið "formælandi" neins fyrirtækis sem ég ynni hjá eða ætti því ég gæti ekki hugsað mér að vera tengdur fyrirtæki eða samtökum sem ég fyndi mig knúinn til að "formæla" ;)

Smá gáta í lokin, hvaðan er þessi tilvitnun?:

"Add a dab of lavender to milk; leave town with an orange, and pretend you're laughing at it."

Heyrumst :)