Ritstífla

Wednesday, February 22, 2006

Brot af því besta

Hver man ekki eftir gátunni "fyrir hvaða brot er ekki refsað?"?
Svörin gátu verið mjög fjölbreytt en vinsælast var "beinbrot" :)
Fleiri möguleikar eru auðvitað t.d.: "heilabrot", "brotabrot","landbrot","almenn brot og tugabrot", "brot sem lenda á skipum","brot í samanbrotnum flíkum","sekúndubrot","brot af kexkökum", "brot úr degi" o.s.frv.

Svo er nú hægt að vera fábrotinn, margbrotinn, stórbrotinn, brotinn á bak aftur, fyrir utan eina af minnst breyttu núlifandi lífverunum sem er auðvitað Þríbrotinn ;)

Hér að ofan hefur verið minnst á "brotakex" og "brotsjó" en einnig eru til "brotalamir" og "brotstuðlar" svo eitthvað sé nefnt :)

Annars var ég að spá í að hreinsa smá upp hérna því enn er nokkrum gátum sem ég hef kastað fram ósvarað ;)

Sú elsta er frá 1. janúar 2006 þar sem spurt var um hvaðan eftirfarandi tilvitnun væri:

"Add a dab of lavender to milk; leave town with an orange, and pretend you're laughing at it."

Hér er auðvitað á ferðinni tilvitnun í einn fyndnasta "pilot" (upphafsþátt) sem ég hef séð í gamanþáttaröðum, nefnilega "Black books", sá sem þetta mælti hafði ekki einungis gleypt í stresskasti "litle book of calm" heldur var hann farinn að rugla tilvitnunum úr henni saman eftir nett bank sem hann fékk frá ósáttum áheyrendum ;)

Fleiri leyndardómar verða afhjúpaðir síðar, heyrumst :)

Sunday, February 19, 2006

Til hamingju Evrópa .....

Tja, hvað getur maður sagt, varð eins og margir aðrir vitni að því þegar einn keppandi af 15 sópaði til sín 2/3 hluta atkvæðamagnsins í símakosningu í forkeppni söngsjónarspilsins í gær ;)

Vonandi fer þetta ekki eins og með lagið "Þú og þeir" sem fékk rússneska kosningu hérna heima en tillti sér í frátekið 16. sætið úti í útlandinu ....

Annars væri gaman að setja einhverjar fáránlegar kröfur um textasmíð í næstu undankeppni eins og t.d. krefjast þess að öll lögin snúist að einhverju leiti um hælsæri eða þá að það verði að vera jafn mikið af "a" og "e" í textanum.
Eins mætti banna rím og setja "klisju"-kvóta ;)

Magnað þetta með endurnar: "andaslitrur", "standa á öndinni", "endur fyrir löngu", "andfælur", "að andmæla", "andstreymi", .....

Að við tölum nú ekki um gæsirnar ;)

Tuesday, February 14, 2006

Stórt og smátt

Magnað þetta að hafa bara 1 dag á ári tilheyrandi rómantík, hina daga ársins er allt vaðandi í pólitík!!! :(
Ég segi nú bara snúum þessu við! :)
Auk þess, tillidagarómantík er of þvingandi, rómantíkin virkar best hvers dags ;)

Stutt færsla hjá mér í dag, lýk dagsfærslunni með hefðbundnum vangaveltum.
það eru til nokkur "stórt og smátt" orðatiltæki, t.d.
"allt og sumt",
"ár og dagur" og
"allt og ekkert".

Dettur fólki fleiri svona í hug? :)

Thursday, February 09, 2006

Tillitssemi

Heitasta málið núna í útlandinu er auðvitað teiknimyndafárið og virðist það ætla að vefja eitthvað upp á sig.

Ég las soldið misvísandi fyrirsögn á textavarpinu nýlega en þar stóð eitthvað á þá leið að Bush væri að stilla til friðar. Ég varð auðvitað himinlifandi, hélt að loksins væri "runninn" að gera eitthvað gagn en auðvitað var hann bara að reyna að fá "skjólstæðinga" sína múslimana til að halda friðinn einhliða!

Ég hef eiginlega verið að bíða eftir því að einhverjir fulltrúar kristninnar og gyðingdómsins tækju til máls til að sýna málstað múslima samstöðu því í báðum samfélögunum er blátt bann lagt við skurðgoðadýrkun og þar með talið er bannað að búa til líkneski af guði.
Nú skal að vísu viðurkennt að í kristni þá hefur allt verið vaðandi í Kristlíkneskjum að ég tali nú ekki um alla dýrðlingana í Kaþólsku en samt held ég að ef fólk sem samþykkir bannið við guðslíkneskjasmíð hugsar aðeins málið þá sé auðvelt að skilja múslima og taka þátt í friðsömum mótmælum með þeim en að sjálfsögðu ættu allir aðilar að tala gegn ofbeldinu.

Oft hefur mér þótt sem það eina sem upp á vanti til að ná að friða miðausturlönd sé eitthvert hitamál sem múslimar og gyðingar geti orðið sammála um og sameinast um að berjast fyrir.
Við fyrstu sýn virtist mér þetta skopteikninga mál líklegt til láta allt fara í hundana en hér er kannski komin óvænt leið til að þjappa saman þorra gyðinga og múslima í Palistínu/Ísrael.

Eitt er a.m.k. alveg augljóst og hefur með öll mannleg samskipti að gera, þegar maður á samskipti við annað fólk þá hefur maður yfirleitt val á milli mismunandi umræðuefna, sum þeirra er ljóst að fólk er ósammála um en önnur er fólk sammála um og svo fer það bara eftir því hversu tillitssamt fólk er hvaða umræðum það byrjar á!

Annað sem maður hefur komist að er það að meira máli skiptir ef maður á að átta sig á fólki að hlusta eftir því hvernig það talar um aðra heldur en hvernig talað er um það :)
Nú er maður auðvitað að bjóða þeirri hættu heim að aðrir fari að taka mig til greiningar og komist þar með að því hversu mikið "spagettí" maður er, þ.e. ef það var ekki orðið ljóst fyrr ;)

Pælið aðeins í orðinu "At-vinna", soldið spés ;)

Saturday, February 04, 2006

Að falla í kramið!!

Ekki gott ef maður er bifvélavirki ...

Var annars að láta mér detta í hug að gott væri að búa til nýja lífsreglu.
Nú hafa ýmsir lýst efasemdum um að "lífið sé leikur" en ég er hins vegar harður á því að það sé einmitt málið, lífið ER leikur, maður þarf bara að fatta leikreglurnar ;)
Eins er lífið að sjálfsögðu dans á rósum, gallinn er bara sá að sumir eiga það til að stíga oftar á þyrnana en "iljarnar þola"!!
En aftur að nýju lífsreglunni, vandamálið við rökræður er sá að sumum hættir til að villast yfir mörkin milli rökræðu og rifrildis en þau mörk er einfalt að finna með dB-mæli eða með því að hlusta eftir lengd og fjölbreytni í orðavali (er þó ekki ennþá búinn að finna sérhæft mælitæki fyrir það) því rifrildismegin eru orðin fábreyttari og oftast eins-atkvæðis (nei, jú, víst, ....).

Hvernig kemur maður þá í veg fyrir rifrildi?
Nýja lífsreglan reddar því, kannast einhver við leikinn "frúin í Hamborg"?
Við einfaldlega setjum þá reglur um rökræður að sá sem fyrr hækkar röddina upp fyrir fyrirfram umsaminn hljóðstyrk tapar rökræðunum og eins geta menn ekki svarað fyrir sig með eins-atkvæðis orðum oftar en 4 sinnum og svo má líka takmarka eitthvað fjölda endurtekninga (að fyrirmynd þráteflis-reglna í skák).
Væri ekki hreinn unaður að horfa á umræðuþátt í sjónvarpinu þar sem fyrir utan þáttarstjórnandann þá væri dómari og aðstoðarmenn með skeiðklukkur og mælitæki og eftir bendingum þeirra þá myndi hann skyndilega flauta og vísa einum þátttakandanum úr myndverinu og gefa bendingu sem gæfi til kynna hvers eðlis brotið væri (hljóðmúr rofinn, ítrekunarbrot, atkvæðaekla, ...).
Gaman að sjá stjórnmálamennina svitna, ekki af áreinslunni við að þenja raddböndin, heldur vegna þanþols þolinmæðinnar ;)

Þetta myndi kenna fólki þá tækni að blóta brosandi ;)

Heyrumst :)

Sveinbjörn Pétur

Wednesday, February 01, 2006

Athyglirör

Ég man óljóst eftir því þegar ég var í grunnskóla í íþróttum hvað maður var óþolinmóður að byrja á boltahluta tímanna en hafði það sterklega á tilfinningunni að upphitunin myndi engan enda taka.

Ég er reyndar enn á þeirri skoðun að maður sé kominn út í einhverjar öfgar í íþróttaiðkun þegar maður stundar íþróttir einungis af skyldurækni og/eða harðri samkeppni.
Upphitun hefur samt fengið örlítið jákvæðari merkingu í mínum huga þó ég geti eiginlega með engu móti fengið mig til að stunda einhver hlaup nema þá stöku spretti ef markmiðið er að ná til bolta eða einhvers annars takmarks í hópíþróttum.
Ég held þetta sé aðallega eirðarleysi því mér finnst yfirleitt ekkert erfitt að keyra mig áfram í stuttan tíma eða þá í lengri tíma með mikilli fjölbreyttni. Þetta er þó ekki "eirðaleysi í fótum" því það virðist vera e.k. "heilkenni".

Annar hlutur sem reynir mikið á þolinmæði mína er fyrirbæri sem maður var skikkaður til að gera eftir æfingar þegar maður var yngri en svo kom e-t millibils ástand þar sem hætt var að skipa manni fyrir og seinna lenti ég meira að segja í því að einhverjir töluðu beinlínis um óhollustu og hættur sem fyldu þessu.
Hér er ég auðvitað að tala um teygjur og þó maður sé farinn að fikra sig áfram með þetta aftur þá "býr" maður ennþá að því að hafa verið leyft að ráða hvort maður sleppti þeim á tímabili, að ég tali nú ekki um þann áróður sem rekinn var gegn teygjum í hópi stráka sem ég stundaði eitt sinn fótbolta með (hryllingssögur um lausa ökkla höfðu mikil áhrif, meira að segja á teygjur á alls óskyldum vöðvum).
Það er kanski ekki skrítið að þegar ég hóf að stunda TDK (Tae Kwon Do) sumarið 2005 þá var maður spurður að því hvort maður hefði stundað fótbolta og það fylgdi sögunni að þeirra reynsla af eldri nýliðum væri sú að stirðastir væru þeir sem kæmu úr boltanum.

Í augnablikinu er ég hvorki að stunda "hnjábana" (fótbolta) eða teygjur en það er einfaldlega vegna þess hve mikið ég hlífi mér vegna nýlegra hnjámeiðsla en þegar það lagast þá reikna ég ekki með miklu boltasparki heldur munu teygjurnar og hættuminni íþróttir aukast til muna.

Það eru væntanlega til öfgar í öllu, ofálag vegna ofþjálfunar, tímaleysi vegna of þéttrar æfingaáætlunar, svefnleysi af sömu orsökum, sjálfsmyndarbrenglun (allt snýst um markmiðið, einstaklingurinn verður lítið annað en mælipunktur á stikunni milli upphafs og markmiðs) og svo auðvitað "regnboga vandamálið" þ.e. takmarkið sem allur tíminn fer í að ná breytist stöðugt og færist undan, stundum jafnvel hraðar en ávinningurinn í átt að því.

En ætli þetta sé ekki bara eins og með peningana og söfnun þeirra, flestir geta bent á utanaðkomandi dæmi um einstaklinga sem gengið hafa lengra en þeir ættu að þurfa í söfnun auðs en fæstir eru til í að viðurkenna að þeir séu eiginlega komnir með alveg nóg sjálfir ;)

Það er því vissulega hægt að verða óþarflega sterkur, og væntanlega einnig óþarflega lipur þó mælikvarðinn á það hvenær það er orðið óhagkvæmt sé auðvitað tíminn sem menn fórna í það frekar en styrkurinn og liðleikinn sem menn ná :)

Hér er t.d. einn í liðugri kantinum, skyldi hann hafa fórnað tíma frá fjölskyldu og vinum og þarf hann þennan liðleika í raun og veru ;)

Svo smá orðaföndur í tilefni af EM:

"Þökk fyrir alla stuðningsmennina, við vorum nefnilega alveg að sligast undan öllum áhangendunum"

Ef einhver er að velta fyrir sér fyrirsögninni þá er þetta einfaldlega orð sem ég rak augun í (óeiginleg merking) og næstum því tærnar í (eiginleg merking) haustið 2005 og hef séð annað slagið síðan þegar ég er á ferðinni í vinnunni, alltaf á sama stað, hvergi annars staðar ;)

Heyrumst :)